Við sjóinn eru oft margir fuglar enda er þar fjölbreytt og mikið æti fyrir fjölda tegunda.
Fjörur Kópavogs eru skjólsælar. Kársnes er innnes, sem þýðir að það er ekki fyrir opnu hafi heldur inni í firði eða flóa.
Að auki má nefna að bæði Fossvogs- og Kópavogslækur bera með sér yl til strandar sem gerir líf fuglanna (að minnsta kosti sumra) notalegra.
Hér er langur listi yfir fugla sem hafa sést í fjörum Kópavogs.
- æðarfugl
- tjaldur
- sandlóa (vor og haust)
- heiðlóa (vor og haust)
- stelkur
- lóuþræll
- sendlingur (mest að vetrarlagi)
- kría
- máfar (þar á meðal svartbakur, sílamáfur og hettumáfur)
- tildra
- rauðbrystingur
- stari
- margæs
- grágæs
- spói
- rauðhöfðaönd
- hávella
- stokkönd
- fálki (sést örsjaldan)
Lærið um fuglana sem þið sjáið í fjörunni og við hana:
-
Kannski getið þið skipt með ykkur fuglunum og kynnt ykkur einn sérstaklega og sagt frá honum, eða safnað saman upplýsingum frá öllum í nemendahópnum og birt í ykkar eigin fuglabók.
-
Fylgist vel með fuglunum. Hvar nákvæmlega eru þeir og hvað eru þeir að gera?
-
Gaman er að fylgjast með þegar fuglar finna sér eitthvað í gogginn til að éta, þegar þeir gera sér hreiður, finna maka og æxlast, hugsa um ungana sína, hópa sig og svo framvegis…
-
-
Reynið að greina fuglana til tegundar og lesið um þá í fuglabók eða á fuglavefnum.
-
Þegar fjarar út er oft mest um fugla – hvers vegna?
- Gerið listaverk sem heitir Fuglinn í fjörunni. Ef vel tekst til ættuð þið að senda mynd sem gæti birst á vefnum.
KENNARAR / FULLORÐNIR
Æti í fjöru
Mest er um fæðudýr í fjörunni þegar tekur að fjara því þá fjarlægist sjórinn smám saman og opnar á það lostæti sem hann hefur skilað upp í fjöru á flóðinu! Um þetta leyti getur verið árangursríkast að fara í fuglaskoðunarferð.
Uppstoppaðir fuglar
Á Náttúrufræðistofu Kópavogs er fjöldi fugla og eru þeir settir upp útfrá búsvæðum. Þar eru því saman fuglar fjörunnar. Þótt skemmtilegast sé að fylgjast með lifandi fuglum getur verið mjög lærdómsríkt að skoða uppstoppaða fugla og þannig sjá þá í návígi í rólegheitum. Þannig er hægt að koma auga á ýmis einkenni og eins gera sér betur grein fyrir stærð þeirra. Stundum eru einnig sýnd egg og hreiður fuglanna.
Fuglaskoðun
Fjaran er æskilegur staður til að stunda fuglaskoðun. Kenna ætti nemendum að nota sjónauka og stilla upp fuglaskópi ef það er til í skólanum.
Fuglaskoðun gengur út á miklu meira en að greina fugla til tegundar og ætti áherslan að vera á það að fylgjast með og velta fyrir sér atferli og útliti fugla. Auðvitað er gaman að þekkja fuglana – en það þarf ekki að vera númer eitt!
Um leið og nemendur fylgjast með fuglum og vinna með þá – verða þeir minnistæðari og auðveldara er að muna heiti þeirra.
Listakonan
Skoða má fleiri verk eftir Sigríði Rún á vef hennar: http://www.siggarune.com/