Lindavatn

Elliðavatn er svokallað lindavatn. Vatn þess er grunnvatn sem kemur fram í lindum, ofan í vatninu sjálfu. Það rennur stöðugt í vatnið og það endurnýjast á um það bil fimm dögum. Ástand vatnsins er ávallt svipað.

Vá!

Elliðavatn, Elliðaár og vatnasviðið er mjög lífríkt. Það á reyndar mjög oft við um lindavötn. Vatnið er grunnt (meðaldýpi er ~1 metri) og fá margar lífverur, bæði plöntur og smádýr þrifist við botninn vegna þess að sólargeislarnir ná til þeirra. Elliðavatn er frekar hlýtt og nær að hitna eða kólna í samræmi við lofthitann.

Vegna halla á landi rennur vatn af ákveðnu svæði í tiltekna á eða vatn. Slíkt svæði nefnist vatnasvið árinnar eða vatnsins.

Neysluvatn fyrir höfuðborgarbúa er tekið af vatnasviði Elliðavatns.

Vatn er gott – (SH).

Afi Hallsteins í Neskaupstað, Hallur, átti heima í Reykjavík og hann átti lítinn bústað við Elliðavatn. Pabbi þeirra Mána og Sólar þekkti hann vel og fór stundum með krakkana í bíltúr til hans. Oft fengu þau að veiða hjá honum eða mála. Hann var nefnilega listmálari sjálfur og var alltaf með uppsettar trönur í skúrnum. Hann gerði líka mikið af því „að bjástra“. Þetta sumarið gerði hann tilraunir með að rækta gulrætur. Honum hafði verið sagt að gott væri að búa til graut til að hræra fræin út í, setja grautinn svo í sprautuflösku og sprauta svo öllu saman í rásir í matjurtagarðinum. Enn hann var svo mikill listamaður í sér að honum datt ekki í hug að gera beinar línur eins og flestir hefðu gert. Nei, hann teiknaði stjörnur og hringi með grautnum góða! Þetta tókst mjög vel hjá gamla manninum og fallegt gras gulrótarplantnanna vaggaði í andvaranum er leið á sumarið.

Eitt sinn er þau heimsóttu Hall sáu krakkarnir menn við vatnið sem voru að skrúbba steina í fjörunni. „Þetta eru nú meiri furðufuglarnir“, sagði Hallur. Máni og Sól áræddu að tala við mennina. „Hvað ætlið þið að gera við steinana?“ Löng þögn. „Við skiljum þá eftir“. „Af hverju eruð þið að skrúbba þá?“ Eftir langa þögn: „Haaa?“ Sól endurtók spurninguna. „Við erum að safna smádýrum sem lifa á steinunum.“ Ennþá fleiri spurningar vöknuðu við þetta svar. „Hvað ætlið þið að gera við þau?“ „Megum við sjá?“ Éta fiskarnir svona dýr?“ „Fór ormurinn inn í stráið?“

Systkinin fylgdust lengi dags með mönnunum sem reyndust vera vísindamenn að kanna lífið í og við vatnið. Þau hefðu getað horft endalaust ofan í föturnar hjá þeim og skoðað smádýrin. Þau voru mjög mörg og fjölbreytt. Mennirnir fóru einnig út á vatnið á bát og þau horfðu á þá draga upp net og gildrur. Þetta var áhugavert.

„Ég ætla að verða vísindakona“ sagði Sól ákveðin á leiðinni heim.

Lífríkið í vatninu

Flokkun vatna

Vötn eru flokkuð í jökulvötn og bergvötn. Er þá bæði átt við stöðuvötn og rennandi vatn, svo sem ár og læki.

Jökulvötn koma úr jöklum og eru gjarnan grá af aur og leir. Bergvötn skiptast í lindavötn og dragavötn.

Uppruni lindavatna er neðanjarðar og koma þau fram í lindum eða uppsprettum. Þar sem eru lindavötn eru jarðlögin gljúp líkt og svampur. Rennslið verður jafnt og jafnframt hitastig vatnsins.

Dragavötn verða til úr vatni sem fellur á yfirborð jarðar og safnast saman, enda er bergið þar sem þau eru gjarnan þétt og hleypir illa í gegnum sig vatni. Búast má við ójöfnu rennsli í dragavötnum enda gætir áhrifa lofthita, mikillar úrkomu eða hláku strax í dragavötnum.

Mengun

Vaxandi byggð í kringum Elliðavatn og – árnar hefur áhrif á gæði vatnsins. Þannig hefur sýnt sig að vatn úr holræsum og götuafrennsli mengar vatnið og hefur slæm áhrif á botndýralíf.

Ný byggð við Elliðavatn er skipulögð þannig að skólp fer í pípu langt út í sjó, en afrennsli af götum og húsum fer í sérstakar settjarnir. Þar hreinsast vatnið áður en það fer út í árnar.

Settjörn - (SH).

KENNARAR / FULLORÐNIR

Elliðavatn áður fyrr – skilti

Skilti um lífríki og umhverfi.

Eðlilegt að skoða Elliðaár og Elliðaárdal í tengslum við vatnið. Bent skal á bókina: Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur.