Við sjáum mosa víða. Algengt er að sjá þá vaxa í mýrlendi, nálægt rennandi vatni, á trjábolum, klettum og á steinveggjum. Mosi er gjarnan fyrsta plantan til að nema land á nýju hrauni. Oft nær hann sér líka á strik á grasflötum þar sem ekki er spilaður fótbolti.
Á Íslandi eru taldar vaxa um sex hundruð tegundir mosa.
Einkenni mosa eru að þeir mynda ekki eiginlegar rætur, blóm og fræ. Hins vegar eru þeir gjarnan með rætlinga sem festa plöntuna. Mosar taka til sín raka í gegnum fínleg blöðin. Mosar fjölga sér með gróum en ekki fræjum. Gróhirslur vaxa á mosa og hafa þær fjölbreytt útlit.
Reynið að finna mosa og takið lítið sýnishorn með í skólann til nánari athugunar. Oft eru mosar smágerðir og gaman að skoða þá í víðsjá. Athugið hvort þið getið fundið mosa með gróhirslu.