Almenn færsla, Fólk og náttúra, Lífríki

Gæsir og fuglainflúensa

Almennt fara grágæsir til Bretlandseyja á veturna en alltaf er nokkur hópur sem heldur sig allt árið á Íslandi, það er á sunnanverðu landinu. Á köldum vetrum og þegar koma frostkaflar eiga gæsirnar erfitt og verða oft að treysta á fóðurgjafir mannsins. En það er fleira en kuldi sem ógnar gæsunum. Nú geisar skæð fuglainflúensa einkum meðal gæsa. Þið hafið eflaust heyrt um hana í fréttum. Ástandið er slæmt.

Fuglainflúensan kemur helst fram í gæsum en einhverjar álftir hafa líka veikst. Líkurnar á smiti frá fuglum í fólk eru MJÖG LITLAR, en fólk þarf að fara varlega og gæta sóttvarna.

Viðbrögð ykkar

Ef þið finnið dauða eða veika fugla eigið þið ekki að snerta þá heldur hafa strax samband við Dýraþjónustu Reykjavíkur (s: 822 7820 / dyr@reykjavik.is), sem starfar fyrir allt höfuðborgarsvæðið í þessum faraldri. Starfsfólk á þeirra vegum sækir fuglana og kemur þannig í veg fyrir smit. Máfar sem kroppa í dauðan, sýktan fugl eiga til dæmis á hættu að veikjast. Dýraþjónustan og Matvælastofnun rannsaka sjúkdóminn og útbreiðslu hans.

Það er sorglegt að svo margir fuglar séu að drepast, en vonandi gengur þessi faraldur fljótt yfir.

Hressir fuglar og krakkar! - (SH)