Um þessar mundir eru ungar að skríða úr hreiðri. Það er alltaf gaman að finna hreiður og fylgjast með fuglum á varptímanum.
Stundum sjáum við illa fleyga unga á vappi, t.d. þrastarunga, sem við höldum kannski að séu týndir. En þeir eru sjaldnast týndir. Foreldrarnir heyra í þeim hljóðin langar leiðir. Þess vegna ættum við aldrei að taka unga – þá er þeim hætta búin. Til að hjálpa til gætum við þó stuggað köttum í burtu. Margir kattareigendur halda sem betur fer köttunum inni á vorin eða setja að minnsta kosti á þá bjöllu.
Svartþrestir verpa nokkrum sinnum á hverju sumri og byrja snemma vors.
Í Hvalfjarðarsveit fylgdist Elmar Snorrason með svartþröstum á hreiðri og kom fyrir vefmyndavél við hreiðrið. Nú hafa ungarnir yfirgefið hreiðrið. Elmar tók saman myndbandsbúta sem sýna vel búskap þessara fallegu fugla. Spilið myndböndin í fullri stærð á YouTube.
Hafið þið séð hreiður eða unga í vor?
Lesið um svartþresti á fuglavefnum, skoðið myndir og hlustið á hljóð þeirra.
Lýsið útlitsmuni á kynjunum meðal svartþrasta.
Eru hlutverk kynjanna ólík á myndböndunum?
1 Þarna sjáið þið eggin og fuglinn liggja á. Hvernig eru eggin á litinn?
2 Pabbinn kemur með orma, mamman hreinsar til í hreiðrinu og liggur á. Þetta hvíta sem hún étur er skítur frá ungunum (sést víðar á myndböndunum).
3 Foreldrarnir hjálpast að við að fóðra ungana.
4 Pabbinn færir ungunum góðgæti í gogginn. Hvaða góðgæti er það annars? Ungarnir sjást mjög vel og hafa stækkað nokkuð.
5 Syfjaðir ungar fá að éta.
6 Mamman breiðir vængina yfir ungana í rigningu. Pabbinn kemur heim með orma.
7 Ungar farnir að ókyrrast. Yfirgefa bráðlega hreiðrið.
8 Orðið þröngt í kotinu (hreiðrinu).
Fyrsti fer…
… annar…
… þriðji …
.. og sá síðasti.