Almenn færsla, Fólk og náttúra

„Göngum við í kringum einiberjarunn…“

Aðeins ein tegund barrtrjáa er upprunaleg í náttúru Íslands. Hún heitir einir. Auðvelt er að muna það!

Hinar tegundirnar eru innfluttar og hafa verið ræktaðar hér og plantað víðs vegar. Algeng barrtré á Íslandi eru til dæmis sitkagreni, stafafura og lerki.

Barr er í grunninn laufblöð sem hafa ummyndast og orðið í laginu eins og nálar. Sumt barr er svo hvasst að það má auðveldlega stinga sig á því. Barr fellur ekki á haustin líkt og laufið, nema barr lerkisins.

Einir vex niður við jörð en þar sem aðstæður eru góðar getur hann myndað miklar breiður. Á eini myndast einiber sem ná fullum þroska á þremur árum.

Fyrir tíma skógræktar var einir notaður til að skreyta um jólin, já og sortulyng. Þá voru greinar klipptar og þeim komið fallega fyrir til dæmis á heimasmíðuðu jólatré, sbr. mynd hér til hliðar.

Jólatrén sem við notum núna á okkar dögum eru flest flutt inn frá útlöndum en einnig er stór hluti þeirra ræktaður á Íslandi.

  • Er jólatré í skólanum ykkar eða við skólann ykkar?
  • Hvaðan ætli það tré sé komið?
  • Hvaða tegund er það?
  • Hefur jólatréð í skólanum hlutverk? / Af hverju eru sett upp jólatré?
  • Hvað er hengt á jólatré?
Einir - (Wikimedia Commons).

Á Vísindavefnum er meira sagt frá eini – LESA.

Eftirlíking af jólatré í eigu Þjóðminjasafnsins frá um 1900. Handtálgað fyrir Safnbúð Þjóðminjasafnsins af Bjarna Þór Kristjánssyni listamanni og smíðakennara.