Þegar farið er í vettvangsferð er ástæða til að hafa augun opin. Hér á myndinni er til dæmis dauð humla (eða hunangsfluga). Þið kannist eflaust við þær.
Eitthvað fór illa fyrir humlunni sem er nýlega dauð en farþegarnir, sem eru vanir að éta rotnandi leifar virðast gera sér hana að góðu. Hvað olli dauða hennar er ekki vitað.
Þessar litlu pöddur kallast humlumítlar og lifa í búum humla. Ungviði humlumítla nærist á lífrænum leifum sem fellur til í búinu. Þannig helst þar allt hreint og fínt.
Þegar mítlarnir verða stórir, nánast fullorðnir, festa þeir sig á humlurnar og fylgja þeim út úr búinu. Þegar humlurnar sjúga hunangssafa í fallegum blómum láta mítlarnir sig smám saman detta af þeim og fara svo á bak annarri humlu sem heimsækir blómið og fylgja henni í allt annað bú og kynnast þar óskyldum mítlum og fjölga sér ef allt gengur vel.
Það er gott fyrir mítlana að búa með humlunum því hjá þeim fá þeir næringu og skjól og eins flutning á milli staða. Mítlarnir eru líka gagnlegir fyrir humlurnar þar sem þeir éta rotnandi leifar.
Humludrottningar taka með sér mítla í vetrardvala. Að vori stofna þær bú og humlumítlarnir fá nóg að gera.
Við nánari skoðun sáust ótal litlar pöddur á iði – (SH).
Á vef Náttúrufræðistofnunar:
- Um humlumítla
- Um humlur á Íslandi (Skoða vinstri dálk)
Á Vísindavefnum: