Nemendur og kennarar á Marbakka og í Snælandsskóla fengu leyfi til að fara inn fyrir girðinguna á formlega óopnuðum vefnum í síðustu viku. Vorið er komið og fiðringur í öllum: kennurum, nemendum og syngjandi fuglunum. Þær Sveinbjörg Björnsdóttir leikskólakennari og deildarstjóri á Marbakka og Ósk Kristinsdóttir áður kennari í Snælandsskóla voru báðar í bakhópi við gerð vefs um náttúru Kópavogs. Það voru þær sem voru með lykil að hliðinu!
Marbakki
Krakkarnir á Marbakka eru mjög uppteknir af fuglunum um þessar mundir. Börnin smíðuðu fuglahús sem komið var fyrir í tré sem sést vel út um gluggann á deildinni, enda fylgjast börnin vel með öllu. Þar eru fuglarnir fóðraðir með eplum og mat sem börnin útbúa sjálf. Þau hafa komist að því að þeir éta bara rautt epli en ekki grænt! Börnin og kennarar hafa fundið út að það eru aðallega svartþrestir sem venja komur sínar í húsið og gæða sér á krásunum.
Kennararnir á Marbakka eru sammála um að þessi athugun efli börn í virðingu fyrir fuglum og þörfum þeirra, fræði þau um þeirra hagi og efli náttúrulæsi þeirra. – Myndir frá Marbakka.
Snælandsskóli
Árlegur umhverfisdagur var haldinn hátíðlegur í Snælandsskóla á öðrum degi sumars. Eldri og yngri nemendur skólans ásamt nokkrum kennurum fóru þá í fuglaskoðun, gengu um Fossvogsdal og veltu fyrir sér fuglalífinu. Í dalnum eru trjálundir og skógrækt og þar rennur einnig lækur svo búsvæðin eru ólík og fuglalífið fjölbreytt.
Stelpurnar sem grúfa eru að velta fyrir sér fæðu fugla, það er ormum. Myndir frá Snælandsskóla.
Fuglar í Fossvogsdal
- Hvaða fugla sáuð þið?
- Hvaða fugla þekktuð þið? https://fuglavefur.is/
- Voru fuglarnir saman í hópum, eða stakir?
- Voru fuglarnir í trjánum, á jörðinni eða á vatni?
- Sáuð þið aðrar lífverur, hvaða? Voru þær í hópum eða stakar?
- Takið myndir af fuglum og öðrum lífverum sem þið sjáið.